Innlent

Ófært víða um land og mikil hálka

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ökumenn þurfa að fara sérstaklega varlega í dag.
Ökumenn þurfa að fara sérstaklega varlega í dag.
Töluvert hvassvirði er norðvestan til á landinu og víða skafrenningur samkvæmt ábendingu frá veðurfræðingi.

Víða skafrenningur á fjallvegum og sums staðar einnig él eða snjókoma. Í byggð norðan- og austanlands helst hiti yfir frostmarki, en það lægir mikið á þeim slóðum í bili. Hvessir aftur í

kvöld þegar nýtt úrkomusvæði nálgast úr austri með úrkomu, en fremur mildu lofti.

Færð

Hálkublettir eru er á  Hellisheiði og í Þrengslum en annars er hálka eða hálkublettir víðast hvar á Suðurlandi.

Flughálka er þó á Lyngdalsheiði, á Krýsuvíkurvegi og nokkrum vegum í kringum Hvolsvöll.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum. Óveður er við Hafursfell, í Staðasveit, og á Fróðárheiði. Hálka er svo á Holtavörðuheiði en flughálka er í vestanverðum  Hrútafirði og óveður.

Á  Vestfjörðum er þæfingsfærð á Kleifaheiði en snjóþekja og skafrenningur á Hálfdán og Mikladal. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Klettsháls og beðið er með mokstur vegna veðurs. Þungfært er svo á Þröskuldum og óveður. Ófært er  frá Bjarnarfirði og norður í Djúpavík á Ströndum.

Ófært er yfir Þverárfjall og beðið með mokstur vegna veðurs en annars er hálka eða snjóþekja víðast hvar á  Norðurlandi. Hálka og óveður er í Húnavatnssýslum, þungfært er svo á Öxnadalsheiði og einungis fært stærri jeppum.

Norðaustan til er ófært er á Mývatnsöræfum en unnið er að mokstri. Á Austurlandi er ófært á Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfum en unnið er að opnun. 

Snjóþekja er svo á Fagradal en hálka á Fjarðarheiði og Oddskarði. Hálka eða hálkublettir eru svo á öðrum leiðum en þó er þungfært yfir Vatnsskarð eystra. Autt er svo alveg með suðausturströndinni frá Djúpavog.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×