Þann 2. júlí 2009 lést einn í flugslysi í Vopnafirði þegar lítil einshreyfilsvél af gerðinni Cessna 180 rakst á rafmagnsstreng og brotnaði. Í niðurstöðum skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur meðal annars fram að flugvélinni hafi verið flogið neðan við lágmarksflughæð, sem var 500 fet (150 metrar) yfir jörðu á staðnum þar sem vélin brotlenti.
Þann 1. apríl 2010 brotlenti lítil flugvél af gerðinni Cessna 177 í hlíðum Langholtsfjalls með fjóra innanborðs. Tveir slösuðust alvarlega. Flugmaðurinn flaug vélinni ítrekað lágt yfir sumarhús í Heiðarbyggð þar til hann fann bústað sem ættingjar hans dvöldust í og flaug beint yfir húsið. Er hann hugðist taka U-beygju hrapaði vélin til jarðar og brotlenti.
Í skýrslu Rannsóknarnefndarinnar kemur fram að ein af orsökum slyssins hafi verið lág flughæð og því lítið svigrúm til leiðréttingar og til að ná nægilegum flughraða.

Reglur um lágmarksflughæðir er að finna í flugreglum 55/1992. Þar kemur fram um lágmarksflughæð:
„Loftförum skal ekki flogið neðan lágmarksflughæða nema við flugtök og lendingar. Haga skal flugi þannig að það skapi ekki ónauðsynlegan hávaða né hættu fyrir fólk og eignir komi til nauðlendingar. Lágmarkshæð yfir borgum, öðrum þéttbýlum svæðum og yfir útisamkomum skal vera að minnsta kosti 1000 fet (300 m) yfir hæstu hindrun innan 600 m fjarlægðar frá loftfarinu og annars staðar að minnsta kosti 500 fet (150 m) yfir láði eða legi.“
Mikael Tryggvason, bróðir Péturs Tryggvasonar sjúkraflutningamanns sem lést í flugslysinu í Hlíðarfjalli hyggst óska opinberrar rannsóknar á tildrögum og eftirmálum slyssins. Um tveimur mínútum fyrir slysið óskuðu flugmennirnir eftir og fengu heimild flugumferðarstjóra á Akureyrarflugvelli til að taka einn útsýnishring yfir bæinn fyrir lendingu. Lágflugið sem þeir reyndu síðan yfir akstursbrautinni þar sem vélin brotlenti er ekki heimilt samkvæmt ofangreindum reglum.