Í Evrópu er Ásgeir aðalnúmerið en norska stúlknasveitin Farao sér um upphitun í Evrópu.
Hinn 15. janúar kemur Ásgeir fram á EBBA-verðlaunahátíðinni í Hollandi en hann vann verðlaunin fyrir skömmu. EBBA-verðlaunin eru veitt því tónlistarfólki sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri með tónlist sinni út yfir landamæri heimalandsins. Sigurvegararnir eru valdir annars vegar af markaðsgreiningarfyrirtækinu Nielsen Music Control á grundvelli tónlistarsölu og útvarpsspilunar og hins vegar með atkvæðagreiðslu innan Samtaka evrópskra útvarpsstöðva (EBU) og tengslanets evrópskra tónlistarhátíða.

Plata Ásgeirs, In the Silence, sem hefur fengið prýðisdóma í erlendum miðlum, kemur út í Evrópu 27. janúar. Þá er hún komin í forsölu á tonlist.is með tveimur glænýjum aukalögum og þremur lögum í órafmagnaðri útgáfu. Í febrúar fer fara þeir félagar í fyrsta skipti til Asíu en þar koma þeir meðal annars fram með stórhljómsveitum á borð við Mogwai og The National.
Bandaríkin eru næsti viðkomustaður á eftir Asíu en þó eru nánari staðsetningar innan Bandaríkjanna ekki staðfestar. Þegar Ásgeir og félagar hafa lokið ferð sinni um Bandaríkin halda þeir aftur til Evrópu.