„Mér finnst gaman að hafa aðrar áherslur en hjá stóru útgáfunum. Mér fyndist gaman ef fólk færi að búa til tónlist til að falla inn í þessa „kategoríu“ og það kæmi út fullt af geimtónlist á Íslandi,“ segir Steinunn, sem hvetur tónlistarfólk til að senda til sín geimtónlist. Hún er sjálf undir áhrifum frá Joe Meek sem gaf út geimtónlist á sjötta og sjöunda áratugnum.
Fyrsta plata útgáfunnar nefnist Glamúr í geimnum og er sú fimmta frá hljómsveit Steinunnar, dj. flugvél og geimskip. Hún kemur út í tilefni af komu halastjörnunnar ISON. Myndband við titillag plötunnar er komið út. Það gerist í geimfari og var í tvo mánuði í framleiðslu.
Sveitin dj. flugvél og geimskip tekur bara upp tónlist á fullu tungli og það tók því tvö ár að ljúka við plötuna.
Útgáfutónleikar verða á laugardagskvöld klukkan 21 á Kexi hosteli, daginn eftir fullt tungl. Fyrst verður sýnd furðuleg kvikmynd og boðið upp á sykurull. Eftir það hitar Arnljótur Sigurðsson úr Ojba Rasta upp með óvenjulegri tónlist og að lokum spilar dj. flugvél og geimskip.