Rut stundaði fatahönnunarnám við IEP-skólann í Barcelona áður en hún sneri sér að skartgripahönnun. „Ég var að gera lokaverkefnið mitt í skólanum úti og leitaði eftir innblæstri í öllu sem var í kringum mig. Vinahópurinn minn þarna úti samanstóð af svolítið „dark“ og pönkaralegum týpum. Ég heillaðist af útliti þeirra og fékk þannig innblástur fyrir skartgripalínuna mína,“ segir Rut. Hönnun hennar einkennist af keðjum og hauskúpum sem hún málar eða spreyjar.

„Þetta er allt að smella og ég er ekki lengur að selja bara í gegnum Facebook. Viðskiptavinirnir eru fólk af öllum gerðum, bæði strákar og stelpur. Meira að segja eldri konur hafa keypt hálsmen af mér, þær eru greinilega ekki hræddar við að ganga með hauskúpur um hálsinn,“ segir Rut og hlær.
Rut starfar á Hótel Reykjavík um þessar mundir en hyggur á frekara nám í hönnun eða myndlist í framtíðinni.
„Mig langar að fara í Myndlistarskóla Reykjavíkur og jafnvel læra ljósmyndun líka. Það er svo margt sem mig langar að gera,“ segir athafnakonan Rut að lokum.
Rut Karls Jewlery fæst í Dusted.is