Tónlist

Nýtti Eurovision-ferðalagið vel

Freyr Bjarnason skrifar
Blúsarinn Beggi Smári spilar á tvennum tónleikum í Kaupmannahöfn og Malmö í kvöld og á föstudaginn. Fyrri tónleikarnir verða á staðnum Mojo í Kaupmannahöfn.

Beggi tryggði sér giggin þegar hann var staddur í Malmö að syngja bakraddir fyrir Eyþór Inga í Eurovision. „Það er ekkert auðvelt að fá að spila þarna,“ segir hann um Mojo. „Þetta er kannski helsti blúsklúbburinn á Norðurlöndum. Ég skaust yfir eitt kvöldið og tók þátt í djammi.“

Þeir sem reka staðinn voru svo hrifnir af frammistöðu hans að hann var bókaður á tónleikana sem verða í kvöld. Í sömu ferð tryggði hann sér einnig gigg í Malmö.

Ferðin leggst vel í Begga, sem tekur trommarann Friðrik Geirdal Júlíusson með sér út. Þeim til halds og trausts verður danskur bassaleikari, Thorkil Christensen.

Beggi hefur farið víða til að kynna sólóplötu sína, Mood, sem kom út 2011. Meðal annars spilaði hann á blúshátíð í Wales.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×