Aðspurður segir hann að gömlu góðu lögin með Utangarðsmönnum, Egó og frá sólóferli hans verði spiluð á umræddum tónleikum. „Mér segir svo hugur um að það verði reynt að húðfletta menn með hávaða.“
Alls koma tíu hljómsveitir fram á Rokkjötnum. Auk Bubba og félaga stíga á svið Sólstafir, Agent Fresco, Dimma, Legend, The Vintage Caravan, Saktmóðigur, Kontinuum, Strigaskór nr. 42 og Ophidian I. Miðasala hefst á Midi.is í dag.
Snæbjörn Ragnarsson úr Skálmöld er skipuleggjandi hátíðarinnar. Hann er mjög ánægður með að hafa fengið Bubba til liðs við sig. „Ég er ótrúlega sáttur við að karlinn hafi tekið svona vel í þetta. Þetta nýrra „stöff“ hans er ekki mitt kaffi en það sem hann gerði þegar hann var á fullu í rokkinu er ódauðlegt. Ég stakk því að honum hvort við ættum ekki að setja alvöru rokkhundaband á bak við hann og gera þetta á gamla mátann og hann var miklu meira en til í það. Það er ekkert langt í rokkarann í gamla,“ segir Snæbjörn.
Um tvö þúsund manns sóttu Rokkjötna í fyrra og býst Snæbjörn við enn fleiri gestum í ár. „Þetta gekk ótrúlega vel í fyrra. En við þurftum að hafa fyrir því að láta þetta rúlla því við vorum ekki mjög fjársterkir. Maður finnur það núna að fólk veit af þessu og trúir á þetta. Það er búið að kveða niður þessar fáu efasemdarraddir sem maður heyrði í fyrra.“