Stuðmenn ásamt Björgvin Halldórssyni, Diktu, Valdimar og Á móti sól spila á stórtónleikum Bylgjunnar sem verða á Ingólfstorgi á menningarnótt 24. ágúst.
Tónleikar þessir hafa fyrir margt löngu fest sig í sessi sem einn stærsti viðburður menningarnætur. Þeir hefjast stundvíslega klukkan 20.30 og lýkur rétt áður en flugeldasýningin hefst.
Tónleikarnir verða sendir út beint á Bylgjunni. Hægt er að hlusta á þá í nýlegu appi Bylgjunnar sem hlaðið hefur verið niður í um 50 þúsund snjallsíma að undanförnu.
Tjúllum og tjei, fjölskylduskemmtun Bylgjunnar, verður á Ingólfstorgi um miðjan daginn.
Bylgjan hefur farið með þáttinn Tjúllum og tjei um landið á laugardögum í sumar og ferðinni lýkur á Ingólfstorgi á menningarnótt. Þátturinn verður sendur út frá kl. 12.20 til 16 og umsjónarmenn eru Valtýr Björn Valtýsson og Jóhann K. Jóhannsson. Fram koma Sveppi og Villi, Friðrik Dór og Glaðasti hundur í heimi, Einar Mikael töframaður, Björgvin Halldórsson, Matti Matt, Sigga Beinteins og Rokkabilly-bandið, auk þess sem Dans & Jóga verður með zumba-partí.

