„Það tekur mörg ár að byggja upp fyrirtæki sem þetta og núna er margt um að vera hjá okkur. Starfsmennirnir eru orðnir fjórir og við höfum verið að þróa nýjar vörutegundir á borð við textíl-línu fyrir hótel, handklæðalínu úr lífrænni bómull, töskulínu og bætt við náttfatalínuna okkar.“
„Við gerðum líka línu fyrir Bláa lónið sem kemur brátt úr framleiðslu og svo eru fleiri spennandi samvinnuverkefni í bígerð á næstunni,“ bætir hún við.
Linda Björg hefur verið fagstjóri fatahönnunardeildar frá stofnun Listaháskólans árið 2000 en Katrín María Káradóttir, fatahönnuður hjá Ella og fyrrum aðjúnkt við deildina, tekur við stöðunni í haust. Aðspurð segir Linda Björg að henni þyki ekki erfitt að láta af starfi fagstjóra. „Nú hef ég tækifæri til að sinna rannsóknum og hef tíma til að styrkja enn frekar tengslin milli deildarinnar og atvinnulífsins. Það skiptir mig miklu máli að sýna og sanna að fatahönnun sé góð fjárfesting og verðmætaskapandi,“ segir hún að lokum.

Scintilla er hönnunarfyrirtæki sem hannar heimilistextíl-línu með áherslu á grafík, munstur og áferðir. Munstrin eru í mörgum tilfellum innblásin úr náttúru Íslands.
Í heimilislínu Scintilla eru meðal annars rúmföt, dúkar, handklæði, teppi og náttföt, svo fátt eitt sé nefnt. Mikil áhersla er lögð á markaðssetningu í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Bretlandi.