Tónlist

Millilending fyrir næstu plötur

Freyr Bjarnason skrifar
Tónlistarmaðurinn Ummi hefur gefið út sína aðra sólóplötu.
Tónlistarmaðurinn Ummi hefur gefið út sína aðra sólóplötu. fréttablaðið/pjetur
Tónlistamaðurinn Ummi Guðjónsson hefur sent frá sér sína aðra sólóplötu, Stundum er minna meira.

Hún kemur út á vínyl og geisladiski og inniheldur tólf frumsamin lög. Platan var tekin upp í Litla-Skarði í Borgarfirði vorið 2011 og í Hafnarfirði, Kaupmannahöfn og London í fyrra.

„Ég valdi lög til upptöku fyrir þessa plötu með það fyrir augum að loka því sem ég byrjaði á með fyrstu sólóplötu minni og á sama tíma fara í átt að næstu plötum sem ég er með í vinnslu um þessar mundir. Þannig er þessi plata að mörgu leyti millilending eða tengiflug við það sem koma skal,“ segir Ummi.

Hann er fæddur og uppalinn á Djúpavogi en hefur verið búsettur erlendis síðastliðin sextán ár. Hann gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2010 og var á árum áður annar helmingur og lagasmiður hljómsveitarinnar Sólstrandargæjarnir ásamt Jónasi Sigurðssyni.

Ummi er menntaður í teiknimyndagerð og er með BA-gráðu í computer animation frá Bournemouth-háskóla í Englandi. Hann hefur starfað við tæknibrellugerð í London síðastliðin tíu ár og unnið við nokkrar af stærstu kvikmyndum samtímans á borð við Avatar og Harry Potter.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×