Tónlist

Vök gerir samning við Record Records

Freyr Bjarnason skrifar

Vök sem bar sigur úr býtum í Músíktilraunum í vor hefur gert útgáfusamning íslenska fyrirtækið Record Records.

Hljómsveitin, sem er skipuð Margréti Rán Magnúsdóttur og Andra Má Enokssyni, er að leggja lokahönd á EP-plötu sem kemur út í júlí. Sveitin hefur þegar sent frá sér smáskífulagið Before. Stefnan er svo sett á breiðskífu snemma á næsta ári.

„Ég bind miklar vonir við þetta band. Ég held að þau eigi framtíðina fyrir sér,“ segir Haraldur Leví Gunnarsson hjá Record Records. Síðan fyrirtækið var stofnað fyrir fimm árum hefur Haraldur unnið með mörgum hljómsveitum sem hafa gert góða hluti í Músíktilraunum, þar á meðal Of Monsters and Men. „Þetta sýnir að það eru fullt af efnilegum hljómsveitum sem koma upp úr þessum tilraunum.“

Erlendir aðilar eru þegar farnir að sýna Vök áhuga, en sveitin hitar upp á útgáfutónleikum Botnleðju í Austurbæ 27. júní.

Vök var formlega stofnuð í desember í fyrra, skömmu fyrir Músíktilraunirnar, en Andri og Margrét hafa starfað saman mun lengur. Margrét Rán spilar á gítar og hljómborð auk þess að syngja. Andri Már spilar á saxafón auk þess að stjórna tölvu og syngja bakraddir. Tónlistinni má lýsa sem ljúfri og melódískri raftónlist. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×