„Árangurinn í vetur var betri en í fyrra þar til við lentum í meiðslunum. Við erum bara lítið lið sem reynir að vinna úr sínu. Við erum ekkert með landsliðskarla á lager til að taka við ef einhver meiðist,“ segir Benedikt og minnir á að lítið megi út af bregða hjá liðunum í körfunni. Það hafi sést í úrslitakeppninni þegar meiðsli útlendinga komu niður á árangri Keflvíkinga, Snæfellinga og Stjörnumanna.
Benedikt þjálfaði KR-inga á árum áður en hann hefur bæði gert karla- og kvennalið félagsins að Íslandsmeisturum. Veturinn var KR-ingum erfiðari en reiknað var með og bendir flest til þess að Vesturbæjarliðið sé í þjálfaraleit hjá karlaliðinu. Aðspurður hvort KR-ingar hafi hringt í hann segir Benedikt:
„Án þess að ég fari nákvæmt út í það þá fékk ég þrjár fyrirspurnir og gaf þær allar frá mér.“
Slegist á kjötmarkaðnum

„Nýja reglan býður upp á að slegist verði um íslenska leikmenn. Allir eru að ræða við alla,“ segir Benedikt. Hans leikmenn eru þar ekki undanskildir.
„Allir leikmenn okkar, sem eru á annað borð komnir upp úr grunnskóla, hafa fengið símtal einhvers staðar frá,“ segir Benedikt. Heyrst hefur að hann beri víurnar í Tómas Tómasson, stigahæsta leikmann Fjölnis, sem féll úr deildinni í vetur.
„Það skýrist vonandi á allra næstu dögum en við erum ekkert þeir einu í sambandi við hann,“ segir Benedikt. Greinilegt er að körfuboltaþjálfarar landsins eru mikið í símanum þessa dagana.
„Lið gætu lent undir á þessum kjötmarkaði og farið illa. Þetta er barátta og við þurfum að taka þátt í henni ef við ætlum að vera með samkeppnishæft lið.“
Kostir og gallar við regluna

„Það verður gaman að prófa þetta en reglan er ekki að hjálpa liðunum úti á landi og lítil hamingja með regluna þar,“ segir Benedikt. Hann minnir á að það sé sama til hvaða íþróttagreinar sé litið. Á landsbyggðinni spili erlendir leikmenn alltaf stór hlutverk.
„Svona verður þetta næstu árin og menn verða bara að finna leiðir.“
Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.