Skoðun

Stríðið gegn fíkniefnum

Mikael Torfason skrifar
Við munum líklega ekki lögleiða fíkniefni á nýju kjörtímabili en það er spurning hvort við verðum ekki að leita nýrra leiða til að bregðast við fíkniefnavandanum. Fíkniefnamarkaðurinn sem slíkur er talinn velta 15-30 milljörðum króna á hverju ári, samkvæmt meistararitgerð Ara Matthíassonar fyrir nokkrum árum. Til samanburðar kostar um 30 milljarða að reka Landspítalann.

Við Íslendingar notum í það minnsta yfir 700 kíló af amfetamíni og meira en tonn af kannabisefnum, sem eru helstu efnin sem notuð eru hér á landi. Hið svokallaða stríð gegn fíkniefnum hefur haft lítil áhrif síðustu áratugi og þótt lögregla hafi oft verið efld (og reyndar stundum verið skorin niður) þá breytir það litlu.

Við á Íslandi höfum apað flest upp eftir Bandaríkjamönnum í stríðinu gegn fíkniefnum. Richard Nixon hóf þá vegferð vestra og í dag er svo komið að hvergi í veröldinni eru jafnmargir fangar og í Bandaríkjunum. Sú staðreynd skrifast að mestu á þetta stríð Bandaríkjamanna gegn fíkniefnum. Hér á landi erum við einnig dugleg að loka fólk inni fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni en erum blessunarlega lin við litla neytandann; sjálfan fíkilinn.

Enda er það svo að fíkniefnavandinn er fyrst og síðast heilbrigðisvandamál og félagslegt. Þetta vitum við Íslendingar vel og finnum fyrir í okkar eigin nærumhverfi. Næstum fimmtungur íslenskra karla fer á Vog einhvern tíma á lífsleiðinni og tíunda hver kona. Við látum okkur málefni áfengis- og vímuefnasjúklinga varða og yfir 30 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun SÁÁ um betra líf fyrir þá vímuefnasjúklinga sem enn þjást. Áskorunin felur í sér mannúðlega nálgun þar sem ríkið er hvatt til að eyða hluta áfengisgjaldsins í þá sjúklinga sem eru mjög langt leiddir og síðan börn fíkla.

Þetta er allt gott og gilt. En hvað eigum við að gera við markað sem veltir 15-30 milljörðum króna og lýtur einokun glæpaklíkna? Eigum við að halda áfram að tryggja þeim einokun á þessum markaði með harðri löggjöf og hertri löggæslu? Við takmörkum aðgengi að áfengi með því að stýra verðinu með ríkiseinokun en á meðan útilokum við hassistann og neyðum hann til að versla við vafasamt fólk í skúmaskotum og dimmum kjöllurum.

Kannski er kominn tími til að bjóða hassistanum inn í hlýjuna og leita nýrra lausna. Í stríðinu gegn fíkniefnum erum við komin í sjálfheldu. Neyslan er ekki að minnka, glæpamennirnir eru ekki að linast og virðast þvert á móti forhertari með hverjum deginum sem líður. Því finnum við öll fyrir. Ofbeldið sem við lesum um í fréttum verður sífellt grófara og býr til samfélag, neðanjarðar, sem við getum ekki sætt okkur við.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×