Tónlist

Hjónin rífast stundum á æfingum

Hljómsveitin My Sweet Baklava. Frá vinstri: Þórður, Sveinn Rúnar, Smári og Valgerður.
Hljómsveitin My Sweet Baklava. Frá vinstri: Þórður, Sveinn Rúnar, Smári og Valgerður.
„Það er voðalega gaman að hafa sameiginlegt áhugamál, það er rosalega gott fyrir öll pör," segir Þórður Sævarsson, gítarleikari hljómsveitarinnar My Sweet Baklava frá Akranesi.

Hann og eiginkona hans, Valgerður Jónsdóttir, söngkona og lagahöfundur, eru forsprakkar My Sweet Baklava sem hefur gefið út sína fyrstu plötu, Drops of Sound. Aðrir meðlimir eru bassaleikarinn Sveinn Rúnar Grímarsson og trommarinn Smári Þorsteinsson. Platan var tekin upp á Akranesi á síðasta ári og hefur að geyma ellefu lög.

Spurður hvort þau hjónakornin rífist aldrei á hljómsveitaræfingum segir Þórður að það komi fyrir. „En þá lúffar maður bara, það er ekkert öðruvísi," segir hann og hlær. „Það er gaman að gera eitthvað saman annað en að taka til og elda eitthvað gott."

Hljómsveitin var stofnuð að frumkvæði Valgerðar en þau hjónin hafa starfað saman í tónlistinni í yfir fimmtán ár og eiga slatta af lögum og textum.

My Sweet Baklava spilar melódíska popp- og rokktónlist og hefur þegar náð einu lagi á vinsældarlista Rásar 2, My Decisions. Næstu tónleikar hennar verða á Landnámssetrinu í Borgarnesi á laugardagskvöld og hvetur Þórður Borgnesinga og nærsveitamenn til að láta sjá sig.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×