„Við höfum fengið fjölda áskorana frá íbúum á þessu svæði um að opna Saffran og stækka þannig þjónustusvæði Saffran-veitingastaðanna," segir Jóhann Þórarinsson hjá FoodCo.
Nýr Saffran-veitingastaður verður opnaður í Bæjarhrauni í Hafnarfirði í mars eða apríl þar sem Landsbankinn var áður til húsa. Einnig er fyrirhugað að opna síðar um vorið annan stað á Bíldshöfða í Reykjavík, rétt fyrir neðan Húsgagnahöllina, þar sem Stilling var áður til húsa.
FoodCo keypti rekstur Saffran-staðanna á Íslandi fyrir um ári. Þrír staðir eru starfræktir á höfuðborgarsvæðinu: Einn í Glæsibæ, annar á Dalvegi í Kópavogi og sá þriðji á N1 á Ártúnshöfða.
Saffran hefur getið sér gott orð fyrir heilsusamlega rétti úr íslensku hráefni, með austurlensku ívafi.
Jóhann segir bjarta tíma fram undan hjá fyrirtækinu. „Við höfum fundið fyrir miklum meðbyr á þeim Saffran-stöðum sem við erum með í rekstri í dag. Gengið á síðasta ári var gríðarlega gott og það eru mjög spennandi tímar fram undan og mikið af tækifærum."
Saffran opnar í Hafnarfirðinum
