Innlent

Vetrarfærð víða um land

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Snjór var á götum borgarbúa í morgun.
Snjór var á götum borgarbúa í morgun. Mynd/Valli
Það snjóaði víða á sunnanverðu landinu í nótt og í morgun. Færð er víða varasöm og eru ökumenn beðnir um að fara varlega. Snjókoma hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í morgun og er hálka.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni þá er vetrarfærð í öllum landshlutum með hálku, snjóþekju, éljagangi og skafrenningi. Flughált er á Dynjandisheiði og óveður er í Öræfum.

Hálka er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi en snjóþekja á Suðurstrandavegi. Hálka og éljagangur er á Sandsskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Hálka er á Mosfellsheiði og hálkublettir á Kjalarnesi og sumstaðar í uppsveitum. Hálkublettir eru austan Selfoss, þungfært er á Reynisfjalli en verið er að moka, snjóþekja er austan Víkur. Hálkublettir og óveður er í Öræfum.

Á Vesturlandi er hálka á Snæfellsnesi en snjóþekja víðast á láglendi og einnig sumstaðar éljagangur. Snjóþekja og éljagangur er á Bröttubrekku og snjóþekja og snjókoma á Holtavörðuheiði.

Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum á Vestfjörðum en flughált er á Dynjandisheiði. Hálka og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Klettsháls. Búið er að opna norður í Árneshrepp.

Á Norðurlandi vestra er víðast hvar hálka en snjóþekja er á Þverárfjalli. Á Norðurlandi eystra er snjóþekja og hálka á vegum og víða skafrenningur og éljagangur. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hólasandi en Dettifossvegur er þungfær.

Það er snjóþekja, hálka eða hálkublettir á vegum á Austurlandi og víða éljagangur. Hálkublettir og snjóþekja eru frá Fáskrúðsfirði og áfram með suðausturströndinni.

Ökumenn eru beðnir um að fara varlega og aka samkvæmt aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×