Útvappið er mest sótta smáforrit á Íslandi. Um 50 þúsund manns hafa sótt sér forritið á App Store og vistað í síma sína og spjaldtölvur. Ágúst Héðinsson, forstöðumaður útvarpssviðs 365 segir Íslendinga hafi slegið íslandsmet í niðurhali á appinu, jafnvel heimsmet miðað við höfðatölu.
Í lok apríl gáfu 365 miðlar út Útvappið, nýtt smáforrit fyrir snjallsíma sem gerir notendum kleift að hlusta á dagskrá allra útvarpsstöðva 365 miðla, bæði í beinni útsendingu og einnig á eldri upptökur þátta og hljóðbrot úr dagskránni. Notandinn getur hlustað hvar sem er og hvenær sem er, á Bylgjuna, FM957, X977 og fimm aðrar útvarpsstöðvar með einföldu notendaviðmóti. Útvappið er hið fyrsta sinnar tegundar og er viðmót appsins á íslensku. Ágúst Héðinsson segir viðbrögðin betri en nokkur þorði að vona.
„Já, við settum okkur það markmið að ná þrjátíu þúsund notendum, að ná því markmiði í lok árs. En, við erum nú komin í 50 þúsund tæki; spjaldtölvur og snjallsíma.“
Þarna er verið að slá met í tengslum við niðurhal á smáforriti: „Eftir því sem við best vitum hefur ekkert íslenskt smáforrit komist í álíka tölu og þessa,“ segir Ágúst.
Allir fjölmiðlar hafa gengist undir miklar breytingar, í raun byltingu með tilkomu netsins. Einnig útvarpið þó fátt virðist fá því haggað. „Já, við erum á fleygiferð að taka þátt í þessu. Við verðum að mæta þessu. Notkun á fjölmiðlum er að breytast mjög hratt; með þráðlausum netum, 3G og svo næst 4G. Þannig að segja má að útvarpstækjum hafi fjölgað verulega. Ætli séu ekki yfir hundrað þúsund sjallsímar á markaðnum og ætla má að við séum komnir í öll þau tæki,“ segir Ágúst Héðinsson.
Íslandsmet í niðurhali
