David Cameron, forsætisráðherra Breta, hefur útilokað að breskt íþróttafólk sniðgangi Vetrarólympíuleikana í Rússlandi í febrúar.
Samkynhneigðir um heim allan hafa gagnrýnt ný lög þar í landi sem koma í veg fyrir hvers kyns kröfugöngur til stuðnings samkynhneigðum og öðrum „óhefðbundnum kynhneigðum."
„Ég tel að við séum í sterkari stöðu til þess að mótmæla mannréttindabrotum með því að mæta til leiks heldur en að sniðganga Vetrarólympíuleikana," skrifaði Cameron á Twitter-síðu sína.
Sjónvarpsmaðurinn Stephen Fry skrifaði Cameron opið bréf á dögunum þar sem hann hvatti hann til þess að beita sér fyrir því að leikarnir færu ekki fram í Rússlandi.
Fry telur að með því að halda leikana í Sochi sé verið að leggja blessun sína yfir nýsett lög í Rússlandi sem Fry segir mannréttindabrot. Þá líkir hann meðferð Vladimir Pútín, forseta Rússlands, á samkynhneigðum við meðferðina sem gyðingar fengu hjá Adolf Hitler á sínum tíma.
Viðbrögð Cameron eru í takt við þau hjá Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Obama sagði í gær að hann væri mótfallinn nýsettum lögum í Rússlandi. Honum fyndist þó ekki við hæfi að banna leikana.

