Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var Margera hinn allra rólegasti þegar lögreglumenn stöðvuðu hann við landganginn og gekkst við því að skulda bílaleigunni frá því í fyrra. Tekin var skýrsla af honum og var hann í haldi lögreglu í nokkrar klukkustundir. Hann var síðan látinn laus eftir að hann hafði greitt upphæðina.
Bam Margera lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan tvö í gær ásamt hljómsveit sinni, CKY. Hann spilaði á Spot í Kópavogi í gærkvöldi og hélt sveitin svo af landi brott í nótt.
Eins og kom fram á Vísi í fyrra þá fannst Land Cruiser-jeppi, í eigu Hertz bílaleigunnar, fyrir utan hótel í Reykjanesbæ - fimm dögum eftir að leigutíminn hafði runnið út. Bíllinn var allur dældaður, rispaður og málningarslettur voru á honum.
Lögreglan var kölluð til og bankaði hún upp á hjá Margera, sem reyndist enn dvelja á hótelinu.
Fréttastofa Stöðvar 2 náði í kjölfarið tali af honum þar sem hann útskýrði nánar skemmdirnar á bílnum. Viðtalið má sjá hér fyrir neðan. Þar segist hann hafa staðgreitt 1,2 milljónir fyrir tjónið á bílnum með kreditkorti sínu.
Aftur á móti virðist hann ekki hafa klárað greiðsluna - og þurfti því að klára hana í gær.