Breiðablik, Stjarnan og Selfoss eru með fullt hús eftir tvær fyrstu umferðirnar í Pepsi-deild kvenna í fótbolta en 2. umferðin fór fram í kvöld. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir tryggði Blikum sigur á Val með frábæru skoti.
Hér fyrir ofan má sjá myndir Daníels Rúnarssonar frá leik Breiðabliks og Vals á Kópavogsvellinum.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði eina mark leiksins þegar Breiðablik vann 1-0 sigur á Val á Kópavogsvellinum en markið skoraði hún með stórglæsilegu skoti þegar rúmlega klukkutími var liðinn af leiknum.
Lára Kristín Pedersen og Telma Hjaltalín Þrastardóttir tryggðu sínu liði 2-0 siur á Þrótti en Afturelding steinlá 0-7 fyrir Val í fyrstu umferðinni.
Selfoss er búið að vinna tvo fyrstu leiki sína undir stjórn Gunnars Rafns Borgþórssonar en liðið vann 2-1 endurkomu sigur á FH í Kaplakrikanum í kvöld. Tiana R Brockway skoraði sigurmarkið sjö mínútum fyrir leikslok.
Harpa Þorsteinsdóttir skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara þegar Stjarnan vann 2-1 útisigur á Íslandsmeisturum Þór/KA. Stjarnan er með fullt hús eftir tvo fyrstu leikirna en Þór/KA er bara með eitt stig eftir tvo heimaleiki. Harpa hefur komið að öllum fimm mörkum Stjörnunnar í þessum tveimur sigrum, skoraði fjögur og lagt upp eitt.
Shaneka Gordon skoraði þrennu þegar ÍBV vann 7-2 stórsigur á nýliðum HK/Víkings í Eyjum en ÍBV-liðin eru þar með búin að vinna þrjá fyrstu heimaleiki sumarsins með markatölunni 12-3. Sannarlega sigurstemmning í Eyjum þessa dagana.
Úrslit og markaskorarar í Pepsi-deild kvenna í kvöld:
Þór/KA - Stjarnan 1-2
0-1 Harpa Þorsteinsdóttir (10.), 0-2 Elva Friðjónsdóttir (27.), 1-2 Mateja Zver (65.)
ÍBV - HK/Víkingur 7-2
1-0 Shaneka Gordon (7.), 2-0 Shaneka Gordon (9.), 3-0 Rosie Sutton (11.), 4-0 Bryndís Jóhannesdóttir (38.), 5-0 Bryndís Hrönn Kristinsdóttir (48.), 6-0 Ana Maria Escribano Lopez (62.), 6-1 Íris Dóra Snorradóttir (81.), 7-1 Shaneka Gordon (85.), 7-2 Karen Sturludóttir (86.).
Breiðablik - Valur 1-0
1-0 Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir (64.)
FH - Selfoss 1-2
1-0 Ashlee Hincks (27.), 1-1 Guðmunda Brynja Óladóttir (53.), 1-2 Tiana R Brockway (83.)
Afturelding - Þróttur 2-0
1-0 Lára Kristín Pedersen (74.), 2-0 Telma Hjaltalín Þrastardóttir (83.)
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar að hluta til frá úrslit.net.
