Liðsmenn Stjörnunnar skelltu í sig bollakökum og fögnuðu 33 ára afmæli Jovan Zdravevski eftir gott dagsverk í Grindavík í kvöld.
Jovan, sem er fæddur og uppalinn í Makedóníu en íslenskur ríkisborgari, hélt upp á afmælið með frábærum leik. Jovan skoraði 17 stig auk þess að taka 6 fráköst í sætum sigri Stjörnumanna í Röstinni.
Stuðningsmenn Stjörnumanna voru vel meðvitaðir um afmælisbarn dagisns. Sungu þeir afmælissönginn fyrir sinn mann en það var glatt á hjalla hjá bláum og hvítum í kvöld.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Stjörnumenn fagna með „sjötta“ manninum sínum. Fjórði leikur Grindavíkur og Stjörnunnar fer fram á fimmtudag, Sumardaginn fyrsta. Þá geta Stjörnumenn tryggt sér fyrsta Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins.
