Advania hefur undirritað viðamikinn samstarfssamning við Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) til tveggja ára.
Samstarfið nær meðal annars til fjölbreyttrar upplýsingatækniþjónustu á sviði hugbúnaðar, vélbúnaðar og ráðgjafar. Einnig er fyrirhugað að Advania þrói nýtt mótakerfi fyrir HSÍ á næstu misserum.
„Samstarfið við HSÍ er sóknarbragð enda hyggjumst við liðsinna sambandinu með þeim hætti sem nýtir best styrkleika okkar á sviði fjölbreyttrar þjónustu í upplýsingatækni. Við rennum í leiðinni styrkum stoðum undir tæknilega grunnviði þess sem margir telja þjóðaríþrótt Íslendinga. Það er tilhlökkunarefni að styðja við starfsemi hreyfingar, sem alltaf hefur verið framsækin í notkun upplýsingatækni,” segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, í tilkynningu frá HSÍ.
Auk HSÍ styður Advania við bakið á Háskólanum í Reykjavík og Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna þar sem öll börn með greiningu fá gefins nettengda fartölvu.
„Advania vill með þessum verkefnum taka virkan þátt í uppbyggingu velferðar í íslensku samfélagi og vera ekki bara álitlegur fjárfestingakostur, traustur samstarfsaðili og eftirsóttur vinnustaður, heldur einnig ábyrgur samfélagsþegn, sem leggur sitt af mörkum. Með þessum hætti setur Advania tóninn fyrir hin þrjú stóru samfélagslegu styrktarverkefni fyrirtækisins næstu árin,” segir Gestur.
