Hæstiréttur dæmdi í dag pólskan karlmann, Pawel Jerzy Podburaczynski, í sjö ára fangelsi fyrir að hafa ásamt öðrum mönnum ráðist með ofbeldi og hótunum á starfsfólk úra- og skartgripaverslunarinnar Michelsen og tekið þaðan 49 armbandsúr, auk þess að hafa tekið fjóra bíla í heimildarleysi til þess að nota við ránið. Pawel var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur og því ljóst að Hæstiréttur þyngir dóminn um tvö ár.
Samkvæmt pólsku sakavottorði var Pawel meðal annrs dæmdur til 7 ára fangelsisrefsingar á árinu 2006 fyrir rán og hylmingu og hafði dómurinn ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar hans.
Þá var Pawel gert að greiða Vátryggingafélagi Íslands rúmar 14 milljónir króna í bætur, óskipt með samverkamönnum sínum, þar sem VÍS hefði greitt Michelsen úrsmið hámarksbætur samkvæmt tveimur vátryggingum verslunarinnar hjá VÍS.