Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins flytur setningarræðu sína á flokksþingi flokksins klukkan 14 á morgun en flokksþingið hefst í Gullhömrum í Grafarvogi og stendur til sunnudags.
Fjölmargar ályktanir liggja fyrir fundinum meðal annars um stjórnarskrármál, sem nú eru til umræðu á Alþingi.
Í drögum að ályktun segir að Framsóknarflokkurinn sé hlyntur endurskoðun stjórnarskrárinnar en gera verði kröfu um vandaðan undirbúning og samráð ólíkra aðila.
Breytingar á stjórnarskránni verði ekki undir neinum kringumstæðum þvingaðar í gegn með valdboði stjórnvalda.
Flokkurinn styður auðlindarákvæði í stjórnarskrá. Þá styður flokkurinn jöfnun atkvæða eins og kostur sé, en er alfarið á móti því að landið verði eitt kjördæmi. Frekar þyrfti að horfa til þess að fjölga kjördæmum frá því sem nú er.
Flokksþing Framsóknarflokksins hefst á morgun
