Innlent

Afsláttur aukist með minni útblæstri

Rafmagns-, tvinn-, vetnis- og metangasbílar eru í hópi bíla sem menga minna en bensín- og dísilbílar.
Rafmagns-, tvinn-, vetnis- og metangasbílar eru í hópi bíla sem menga minna en bensín- og dísilbílar.
Unnið er að reglugerðarbreytingu í fjármálaráðuneytinu sem veitir fólki, sem hefur fyrirtækjabíla til umráða, afslátt af hlunnindasköttum vegna þeirra eftir því sem þeir menga minna. Samkvæmt heimildum blaðsins er verið að útfæra breytinguna nánar, en gert er ráð fyrir því að skattaafslátturinn aukist í hlutfalli við minni losun bílanna á gróðurhúsalofttegundum.

Breytingin er hluti af tillögum aðgerðaáætlunar Grænu orkunnar, en svo nefnist verkefnisstjórn stjórnvalda á klasasamstarfi um orkuskipti í samgöngum.

"Þetta er mjög gott mál sem skref í þá átt að ýta undir notkun bíla sem menga minna," segir Sverrir Viðar Hauksson, formaður Bílgreinasambandsins, og fyrrverandi formaður verkefnisstjórnar Grænu orkunnar.

Ekki liggur fyrir hversu stór hópur nýtur þeirra hlunninda að hafa bíl til afnota. "En þetta er samt ótrúlega fjölbreytt flóra sem hefur afnot af bíl með einhverjum hætti og borgar þar með hlunnindaskatta. Þetta snýst ekki bara um einhverja forstjórabíla," segir Sverrir. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×