Heilmyndir af látnu goðsögnunum Jim Morrison og Jimi Hendrix eru í undirbúningi og því styttist í að haldnir verði tónleikar með þeim. Mikið hefur verið rætt um heilmyndir síðan rapparinn Tupac Shakur steig óvænt á svið á Coachella-hátíðinni í apríl. Það voru félagarnir Dr. Dre og Snoop Dogg sem stóðu á bak við uppátækið.
Í viðtali við Billboard sagði Jeff Jampol, sem annast málefni Jims Morrison, að það hafi verið í skoðun í næstum áratug að endurskapa Morrison í þrívídd. Vonast hann til að úr verði margmiðlunarupplifun ásamt hljómsveitinni The Doors. „Vonandi getur Jim Morrison gengið upp að þér, horft í augun á þér, sungið til þín, snúið sér við og gengið í burtu," sagði hann.
Einnig er vitað til þess að Janie, systir Jimi Hendrix, hafi starfað með fyrirtækinu Musion System að gerð sýndarútgáfu af gítarsnillingnum.
Goðsagnir snúa aftur
