„Lokaverkefnið mitt varð stórt teppi úr útsaumsstykkjum, gömlum dúkum og púðum sem ég safnaði að mér. Útsaumurinn hefur gegnum aldirnar verið verk konunnar og ástæða þess að konur fengu að læra teikningu hér áður var til að þær gætu teiknað sín eigin útsaumsmunstur. Ég hef mikinn áhuga á gömlu handverki og munstrum en að yfirfæra þau í málverk," segir Helga.
„Ég sýndi fyrstu útsaumsmunstrin á minjasafninu Hnjóti fyrir vestan fyrir þremur árum, en þau vann ég upp úr gömlum púða frá ömmu. Undanfarið hefur áttablaðarósin átt hug minn allan en hún er svo miklu meira en bara útsaumsmunstur. Hún er eldgamalt tákn og kemur fyrir í mörgum trúarbrögðum, táknar jafnvægi og frjósemi," segir Helga en rósina málaði hún bæði á striga og á trékolla auk þess að perla hana á bókarkápur.

„Ég kenni í leikskóladeildinni, yngstu og elstu börnunum og það er oft ótrúlegt að horfa á hvað þau eru óhrædd við að nota liti og verkin verða til hjá þeim áreynslulaust. Það á mjög vel við mig."