Skoðun

Katrín Jakobs­dóttir verði for­seti Ís­lands

Eftir þrjá mánuði ætlum við að kjósa okkur nýjan forseta. Ég skrifa þessa grein til að skora á Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra til að gefa kost á sér til embættisins.

Katrín Jakobsdóttir hefur sýnt allt frá því hún var á framhaldsskólaaldri að hún er vel til forystu fallin. Skjótur frami hennar í pólitík er merki um mikla hæfileika.



Menntamálaráðuneytið er eitt þyngsta og erfiðasta ráðuneyti ríkisstjórnarinnar. Hún hefur leyst forystuhlutverk sitt þar af hendi með mikilli lagni, þannig að friður er um embættið – sem er langt frá því að vera sjálfgefið – og hún hefur mælst vinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar frá upphafi eins og fram kom í hádegisfréttum ríkisútvarpsins á sunnudag.



Katrín Jakobsdóttir hefur einlægan áhuga á fólki. Hún leggur sig fram um að hlusta á fólk og skilja viðhorf þess. Hún sýnir samborgurum virðingu og er auðmjúk í framgöngu. Hún setur sig vel inn í mál og hefur víðtæka þekkingu og skilning á þeim málefnum sem undir hana heyra, kynnir sér sjónarmið aðila, ræðir hlutina og hefur hæfileika til að lenda málum þannig að sátt ríki.



Mikilvægt einkenni á leiðtogafærni Katrínar Jakobsdóttur eru heilindi hennar. Menn geta treyst orðum hennar. Og ég er sannfærð um að hún mun aldrei setja eigin hagsmuni fram fyrir þá hagsmuni sem hún hefur skuldbundið sig til að sinna í þágu þjóðarinnar.

Leiðtogunar er þörf víða um heim og mikið liggur við að sannir leiðtogar stígi fram og taki að sér forystu í þágu fólksins. Jafnframt þurfa þeir sem sjá sanna leiðtoga að ákveða að fylgja þeim. Von okkar liggur í því að sannir leiðtogar taki forystuna og gott fólk veiti þeim stuðning. Þess vegna hvet ég Íslendinga til að flykkjast um Katrínu Jakobsdóttur og fara þess á leit við hana að hún gefi kost á sér til forsetaframboðs.



Forsetakosningarnar eru tækifæri til nýs upphafs á Íslandi. Forsetinn fær það táknræna hlutverk að sameina íslenska þjóð. Katrín Jakobsdóttir, ég bið þig að íhuga af alvöru að gefa kost á þér til embættis forseta Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×