Innlent

Regnhlífar og regnbogalitir í Gleðigöngunni

Gleðigangan hófst núna klukkan tvö. Þrátt fyrir úrhelli eru hátíðargestir með bros á vör. Mikill fjöldi var saman kominn á Vatnsmýrarvegi þar sem gangan hófst.

Gengið verður í átt að miðbænum, meðfram Reykjavíkurtjörn og framhjá Arnarhóli þar sem útitónleikar fara fram.

Á meðal þeirra sem koma fram eru Friðrik Ómar, Sigga Beinteins, Páll Óskar og Friðrik Dór. Sem fyrr var mikið um dýrðir í göngunni en um fjörutíu atriði voru skráð til leiks.

Það vakti síðan mikla lukku þegar Jón Gnarr, borgarstjóri, veifaði til fólksins klæddur eins og þremenningarnar í rússneskur pönkhljómsveitinni Pussy Riot sem nú bíða dóms vegna pönkbænar í dómkirkju í Moskvu. Á vagni Jóns stendur stórum stöfum: Free Pussy Riot.

Viðbúnaður lögreglu er með minna móti í ár. Samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild verða sex lögreglumenn á bifhjólum sem fylgja göngunni. Þeirra verkefni er að tryggja það að ökumenn virði lokanir á vegum vegna Gleðigöngunnar. Sjúkrabíll er síðan til taks ef þörf er á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×