Tenniskonan Petra Kvitova féll úr leik í fyrstu umferð á Eastbourne-mótinu í tennis í Englandi í dag. Mótið er iðulega hugsað sem upphitunarmót fyrir Wimbledon-mótið sem hefst í næstu viku.
Hin tékkneska Kvitova, sem lagði Mariu Sharapovu í úrslitum á Wimbledon á síðasta ári og á því titil að verja, tapaði gegn Ekaterinu Makarovu frá Rússlandi í tveimur settum 7-5 og 6-4.
Kvitova, sem er í öðru sæti heimslistans á eftir Sharapovu, komst í undanúrslit á Opna Franska á dögunum en mátti þola tap gegn Sharapovu. Makarova er í 48. sæti heimslistans.
