Haukar verða án tveggja lykilmanna í úrslitarimmunni gegn Njarðvík í Iceland Express-deild kvenna. Fyrirliðinn Guðrún Ósk Ámundadóttir er með slitið krossband en frá því var greint á heimasíðu félagsins í dag.
Fyrir aðeins fáeinum dögum kom í ljós að Íris Sverrisdóttir væri með slitið krossband en báðar meiddust þær í sama leiknum - leik númer tvö í undanúrslitarimmunni gegn Keflavík.
Guðrún Ósk og Íris misstu því báðar af þriðja leiknum sem Haukar unnu engu að síður örugglega en þar með „sópuðu" þær deildarmeisturum Keflavíkur úr leik í undanúrslitunum.
Fram kemur á heimasíðu Hauka að í fyrstu hafi verið talið að meiðsli Guðrúnar væru minni háttar en nú hefur annað komið á daginn. Hún fer í aðgerð í lok maí og gæti byrjað að spila á ný í janúar á næsta ári.
Báðar eru byrjunarliðsmenn í Haukum og því er þetta mikið áfall fyrir Hafnfirðinga. Úrslitarimman hefst í Njarðvík á miðvikudagskvöldið.
