Utah Jazz vann í nótt góðan sigur á Miami Heat, 99-98, og stöðvaði þar með níu leikja sigurgöngu síðarnefnda liðsins. Alls fóru ellefu leikir fram í deildinni í nótt.
Devin Harris var hetja Utah en hann setti niður skot þegar 4,5 sekúndur voru eftir og fiskaði víti á Dwayne Wade þar að auki. Harris skoraði úr vítinu og tryggði sínum mönnum sigur.
Udonis Haslem fékk tækifæri til að skora sigurkörfu Miami á lokasekúndunni en hann missti marks. LeBron James var reyndar með boltann en ákvað að gefa hann á Haslem frekar en að skjóta sjálfur - rétt eins og á loksekúndum stjörnuleiksins um síðustu helgi.
James átti þó góðan leik og skoraði 34 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Dwyane Wade var með 31 stig og sex fráköst en Chris Bosh var fjarverandi vegna fráfalls í fjölskyldu hans.
Al Jefferson skoraði 20 stig fyrir Utah sem leiddi lengst af í leiknum. Miami náði þó að koma til baka og hleypa mikilli spennu í lokamínútur leiksins. James setti niður risaþrist þegar 26 sekúndur voru eftir og kom Miami þar með yfir, 97-94. En það dugði ekki til.
LA Lakers vann Sacramento, 115-107. Hinn nefbrotni Kobe Bryant spilaði með grímu og skoraði 38 stig í leiknum. Andrew Bynum skoraði nítján stig og var með fimmtán fráköst. Lakers hefur nú unnið sextán leiki í röð á heimavelli.
Chicago vann Cleveland, 112-91. Luol Deng skoraði 24 stig og Derrick Rose nítján. Kyrie Irving, nýliðinn öflugi í liði Cleveland, missti af leiknum vegna veikinda en hann hefur alls misst af fjórum leikjum í röð. Cleveland hefur tapað öllum þessum fjórum leikjum.
Úrslit næturinnar:
Toronto - Memphis 99-102
Boston - New Jersey 107-94
Atlanta - Milwaukee 99-94
Cleveland - Chicago 91-112
Philadelphia - Golden State 105-83
New Orleans - Dallas 97-92
Houston - Denver 105-117
San Antonio - Charlotte 102-72
Utah - Miami 99-98
Phoenix - LA Clippers 81-78
LA Lakers - Sacramento 115-107
Enski boltinn