Lífið

Mataræðið gildir alveg sjötíu prósent í þjálfun

Garðar Sigvaldason einkaþjálfari.
Garðar Sigvaldason einkaþjálfari. Fréttablaðið/Vilhelm
„Þetta er glæný nálgun sem byggist á miklu aðhaldi, eftirfylgni og persónulegri þjónustu,“ segir Garðar Sigvaldason einkaþjálfari sem nýverið setti í loftið vefsíðuna matardagbok.is, sem er fyrsti vefur sinnar tegundar á Íslandi.

„Þetta er það sem lengi hefur vantað. Það hafa allir lagt mikið upp úr þjálfunarprógrömmunum en minna upp úr mataræðinu,“ heldur hann áfram. „Sem er undarlegt þar sem mataræðið gildir um það bil 70 prósent í þjálfuninni. Það eru allir að leita að hinu fullkomna æfingaprógrammi, sem auðvitað er ekki til, en það gagnast voða lítið að æfa tvisvar á dag ef mataræðið er ekki í lagi.“

Hvernig virkar matardagbok.is í framkvæmd?

„Í upphafi kemur fólk til mín í mælingar, ummálsmælingar, vigtun og fitumælingar, og að því loknu legg ég fram viðmiðunarmatseðil. Eftir það sendir fólk mér matardagbók daglega í 30 daga og ég svara á hverjum degi, þannig að eftir þrjá til fimm daga er mataræðið yfirleitt orðið bara nokkuð gott hjá fólki. Þetta er miklu meira aðhald en áður hefur tíðkast því matseðillinn er leiðréttur á 15 til 25 tíma fresti í þrjátíu daga.“

Garðar segir viðbrögðin við síðunni hafa verið frábær. „Fólk er að missa frá tíu upp í 50 kíló á tiltölulega skömmum tíma. Til dæmis missti einn drengur 40 kíló á 15 vikum hjá mér eingöngu með matardagbókinni. Og það allra besta er að fólk getur búið hvar sem er innan- eða utanlands og samt notið þjónustunnar. Ég er með fólk úti um allt land og erlendis líka sem sér um mælingar fyrir mig, þannig að það er ekki vandamál. Stór hópur viðskiptavina minna eru flugmenn, flugfreyjur og sjómenn, sem með öðrum prógrömmum hafa átt erfitt með að láta mæla sig reglulega.“

fridrikab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×