Karlmaður um fertugt, sem veitti öðrum manni lífshættulega áverka á hálsi með hníf á vínveitingastaðnum Monte Carlo við Laugaveg í fyrrinótt, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 29. júlí næstkomandi að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Maðurinn, sem er erlendurríkisborgari og hefur verið búsettur hér á landi í átta ár, var handtekinn á Monte Carlo seint í fyrrakvöld. Þangað var lögreglan kölluð vegna líkamsárásar. Sá sem fyrir henni varð, karlmaður á fimmtugsaldri, hlaut lífshættulega áverka og liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi.
Þegar lögreglumenn og sjúkrabílar komu á vettvang, hafði árásarmaðurinn stungið hinn í hálsinn með þeim afleiðingum að slagæð til höfuðsins skarst í sundur.
Fórnarlambinu hafði þá þegar blætt mikið. Maðurinn var þegar fluttur á slysadeild Landspítalans þar sem læknum tókst að stöðva blæðinguna. Um er að ræða Íslending á fimmtugsaldri.
Árásarmaðurinn hefur sætt yfirheyrslum hjá lögreglu, auk stórs hóps vitna sem voru á vettvangi. Þá eru til rannsóknar efni úr eftirlitsmyndavélum sem staðsettar eru á skemmtistaðnum.- jss
