Stefán Arnarsson, þjálfari Vals, var mjög svo sáttur með sigurinn í kvöld og sérstaklega spilamennsku sinna manna í síðari hálfleik. Valur vann virkilega mikilvægan sigur á toppliði Fram 23-16 í níundu umferð N1-deildar kvenna.
„Ég er virkilega ánægður með það að hafa unnið þennan leik eftir að hafa spilað frekar illa í fyrri hálfleiknum. Stelpurnar sýndu sitt rétta andlit í seinni hálfleiknum og með frábærum varnarleik þá uppskárum við sigur".
„Með góðum varnarleik þá kemur markvarsla og það sýndi sig í kvöld, en Guðrún Jenný kom sterk inn í lokin og varði mörg mikilvæg skot. Við misnotum fimm vítaköst í leiknum en erum samt sem áður að vinna sannfærandi sem sýnir hversu sterkt lið við erum með," sagði Stefán.
Valur, Fram og Stjarnan eru öll með 16 stig í efstu þremur sætum deildarinnar eftir leikinn í gær en Valur setur stefnuna á deildarmeistaratitillinn.
„Þetta eru allt góð lið en við ætlum okkur að enda mótið í efsta sæti og vera með heimavallarréttinn í úrslitakeppninni," sagði Stefán eftir leikinn í gær.

