Handbolti

Þjálfari HSG Blomberg vanmetur ekki Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karen Knútsdóttir í leik með Fram.
Karen Knútsdóttir í leik með Fram.

Í kvöld mæta bikarmeistarar Fram þýska liðinu HSG Blomberg-Lippe í 16-liða úrslitum Evrópukeppni bikarhafa. Leikurinn hefst klukkan 19.00 í íþróttahúsi Fram í Safamýri.

Reyndar fara báðir leikir liðanna fram hér á landi en síðari leikurinn, sem telst heimaleikur Fram, fer fram á morgun klukkan 16.00.

Fram vann sigur á LC Brühl í 32-liða úrslitum keppninnar en ljóst er að það verður við ramman reip að draga í kvöld enda þýska úrvalsdeildin geysilega sterk.

HSG Blomberg-Lippe er stolt bæjarins Blomberg sem er í Lippe-héraði í sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu.

Liðið komst aftur upp í þýsku úrvalsdeildina árið 2006 og náði sínum besta árangri þar á síðasta keppnistímbili er liðið hafnaði í fjórða sæti.

Liðið átti tvo leikmenn í þýska landsliðinu sem olli miklum vonbrigðum á EM í Danmörku og Noregi í desember síðastliðnum - skyttuna Saskiu Lang og hornamanninn Sabrinu Richter.

Lang á reyndar við meiðsli að stríða og ferðaðist því ekki með liðinu til Íslands.

Þjálfari liðsins heitir André Fuhr og er 39 ára gamall. Hann reiknar með erfiðum leikjum hér á Íslandi.

„En við ætlum að fljúga til Íslands í þeim erindagjörðum að tryggja okkur sæti í fjórðungsúrslitum keppninnar," sagði Fuhr í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Við höfum skoðað upptökur af leikjum Fram gegn Brühl og mátti sjá að þetta lið er með hættulegar skyttur og spilar afar óvenjulega og óþægilega 5-1 vörn. Ég hef hins vegar trú á því að við búum yfir ákveðnum kostum sem við getum nýtt okkur í þessum leikjum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×