Körfubolti

Cassano þakklátur Mourinho og Real Madrid fyrir stuðninginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Cassano í leik með AC Milan.
Antonio Cassano í leik með AC Milan. Nordic Photos / AFP
Antonio Cassano, sem er nú að jafna sig eftir hjartauppskurð, er þakklátur öllum þeim sem hafa sýnt honum hlýhug í veikindunum og þá sérstaklega fyrrverandi liðsfélögum sínum hjá Real Madrid.

Cassano skrifaði opið bréf sem birtist á heimasíðu AC Milan í kvöld þar sem hann þakkar öllum þeim sem hafa sent honum bataóskir.

Sérstaklega þakkaði hann Real Madrid fyrir en leikmenn liðsins sýndu stuðning sinn í verki fyrir leikinn gegn Osasuna um helgina með því að klæðast bolum sem á stóð „Forza Cassano“.

„Ég vil þakka öllum þeim sem óskuðu mér bata eftir að ég kom heim af spítalanum,“ skrifaði Cassano. „Ég vil líka þakka Real Madrid sérstaklega, þá sér í lagi þeim Florentino Perez forseta og Jose Mourinho, þjálfara liðsins.“

„Ég mun nú hvílast á heimili mínu í Genóa og mun fylgjast náið með gangi mála hjá bæði AC Milan og ítalska landsliðinu. Ég lofa því líka að ég muni snúa aftur á völlinn eins fljótt og mögulegt er.“

Cassano fékk vægt hjartaáfall eftir leik AC Milan og Roma í síðasta mánuði og er talið að hann þurfi 4-6 mánuði til að ná fullum bata.

Cassano lék með Real Madrid frá 2006 til 2008 en hann hefur einnig spilað með Bari, Roma, Sampdoria og vitanlega AC Milan, þar sem hann er nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×