Anna María Ævarsdóttir, fyrirliði spútnikliðs Njarðvíkur í Iceland Express deild kvenna á síðasta tímabili, hefur söðlað um og samið við KR. Njarðvík kom öllum á óvart og fór alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn.
Anna María er ein af sex leikmönnum sem skrifuðu undir við kvennalið KR í Frostaskjólinu í gær. "Leikmannahópurinn er þá nánast fullmannaður og lokaundirbúningur fyrir keppnir vetrarins fyrir höndum," segir í fréttatilkynningu frá félaginu.
Leikmennirnir sem um ræðir eru auk Önnu Maríu; Hrafnhildur Sif Sævarsdóttir, Helga Hrund Friðriksdóttir, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir, Kristbörg Pálsdóttir og Sólrún Sæmundsdóttir. Þær Helga, Ragnhildur, Kristbjörg og Sólrún koma upp úr yngriflokka starfi félagsins en Hólmarinn Hrafnhildur Sif hefur flust búferlum suður til Reykjavíkur til að setjast á skólabekk.
