Nýliðar ÍBV unnu langþráðan sigur í Pepsi-deild kvenna í kvöld þegar liðið heimsótti Þrótt á Valbjarnarvöllinn en Eyjakonur fögnuðu þar 5-0 stórsigri. Þetta var fyrsti sigur ÍBV-liðsins síðan 12. júlí þegar liðið vann 1-0 sigur á Íslandsmeisturum Vals.
ÍBV var bara búið að fá tvö stig í síðustu þremur leikjum sínum og hafði fyrir vikið misst af lestinni í toppbaráttunni enda tólf stigum á eftir toppliði Stjörnunnar fyrir leiki kvöldsins.
Vesna Smiljkovic og Kristín Erna Sigurlásdóttir skoruðu báðar á fyrstu tuttugu mínútum leiksins og Eyjaliðið bætti svo við þremur mörkum á síðustu tuttugu mínútunum. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði tvö mörk áður en Kristín Erna innsiglaði sigurinn.
Þróttur er áfram í fallsæti fjórum stigum á eftir KR sem situr í síðasta örugga sætinu.
Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af vefsíðunni fótbolti.net
Eyjakonur með fyrsta sigurinn sinn í tæpan mánuð - burstuðu Þrótt 5-0
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
