Landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir er komin með leikheimild og getur því spilað sinn fyrsta leik með Val í kvöld þegar Fylkir kemur í heimsókn á Vodafonevöllinn á Hlíðarenda í 11. umferð Pepsi-deildar kvenna.
Hólmfríður hefur að undanförnu leikið með Philadelphia Independence í bandarísku atvinnumannadeildinni en ákvað að koma heim þar sem að hún hefur ekki verið í byrjunarliði Philadelphia að undanförnu og vantar meiri spilatíma til að vera í góðu leikformi fyrir landsleiki haustsins.
Hólmfríður mun leika þarna sinn fyrsta deildarleik hér á landi síðan haustið 2008 þegar hún skoraði 18 mörk í 18 leikjum fyrir KR. Hún hefur skorað 101 mark í 110 leikjum í efstu deild.
Hólmfríður mætir uppeldisfélagi sínu Fylki í sínum fyrsta leik í Valsbúningnum en hún hóf knattspyrnuferilinn í Árbænum áður en hún skipti yfir í KR. Leikurinn hefst klukkan 19.15.

