Greta Mjöll Samúelsdóttir fór heldur betur í gang í Grindavík í kvöld þegar Breiðablikskonur unnu sinn fyrsta leik í Pepsi-deild kvenna í sumar. Breiðablik vann 5-1 sigur í Grindavík þar sem Greta Mjöll skoraði þrennu í fyrri hálfleik.
Breiðablik hafði aðeins fengið eitt stig og skorað tvö mörk í fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni en stíflan brast loksins í kvöld en staðan var orðin 4-0 í hálfleik.
Greta Mjöll skoraði mörkin sín á 20., 30. og 33. mínútu en Fanndís Friðriksdóttir hafði komið Breiðabliki í 1-0 á 12. mínútu. Sarah Wilson minnkaði muninn á 54. mínútu en Ásta Eir Árnadóttir innsiglaði sigurinn.
Grindavík er því áfram eina lið deildarinnar sem hefur ekki náð í stig í sumar en liðið hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum með markatölunni 3-11.

