Handbolti

Heimasíða AG: Guðjón Valur búinn að skrifa undir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu.
Guðjón Valur í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Valli
Fram kemur í viðtali við Jesper Nielsen á heimasíðu AG Kaupmannahafnar að Guðjón Valur Sigurðsson sé nú þegar búinn að skrifa undir samning við félagið.

Guðjón Valur sagði þó við Vísi fyrr í dag að hann ætti í viðræðum við AG en að fleiri lið hefðu haft samband við hann. Hann væri ekki enn búinn að skrifa undir samning við AG.

„Ég verð auðvitað að skoða þetta tilboð en hinu er ekki að neita að ég hef verið frá vegna meiðsla og þarf væntanlega að fara í ítarlega læknisskoðun ef ég á annað borð færi til Danmerkur," sagði Guðjón Valur við Vísi.

Nielsen sagði í dönskum fjölmiðlum í morgun að til stæði að fá fimm leikmenn frá Rhein-Neckar Löwen yfir til AG í sumar. Nielsen er stjórnarformaður og eigandi AG og er þar að auki stjórnarmaður hjá Rhein-Neckar Löwen og eigandi KasiGroup, eins aðalstyrktaraðila félagsins.

Nielsen hefur nafngreint þá Guðjón Val, Ólaf Stefánsson og Róbert Gunnarsson og danskir fjölmiðlar greindu frá því í morgun að hinir tveir væru Pólverjarnir sterku Krzysztof Lijewski og Karol Bielecki.

„Við höfum skrifað undir samning við Ólaf Stefánsson sem hefur verið besta hægri skytta heimsins undanfarin ár. Þar að auki höfum við skrifað undir við Guðjón Val Sigurðsson sem er vinstri hornamaður með íslenska landsliðinu og hefur til að mynda verið markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar í tvígang,“ sagði Nielsen í umræddu viðtali.

„Í leit okkar að línumanni höfum við einbeitt okkur að því að finna leikmann sem hefur prófað allt í alþjóðlegum handbolta. Og við völdum leikmann sem er vel þekktur í dönskum handbolta, nefnilega Róbert Gunnarsson sem er sókndjarfur línumaður í algjörum heimsklassa.“

„Það hefur ávallt verið í forgangi hjá okkur að liðið sé fyrst og fremst skipað dönskum leikmönnum. Ef ekki tekst að styrkja liðið nægilega vel þannig munum við víkka leitina og líta til Norðurlandanna. Það er það sem við höfum gert hér. Ef við þurfum að leita enn víðar munum við líka gera það.“

Fyrir eru þrír Íslendingar á mála hjá AG - þeir Snorri Steinn Guðjónsson, Arnór Atlason og Ólafur Guðmundsson. Sá síðastnefndi er nú í láni hjá FH.

Viðtalið við Nielsen má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×