Kronkron frumsýnir sumarlínuna og heldur skóhappdrætti
Skór úr sumarlínunni.
Fimmtudagskvöldið 24. mars klukkan 20 verður slegið til veislu í versluninni Kronkron í tilefni af Hönnunarmars. Þá verður vor- og sumarlína Kron by Kronkron kynnt og skópar úr línunni í vinning í happdrætti.
Einnig opnar í versluninni sýning ítalska hönnuðarins Elisa Vendramin. Hún heitir Þýða og er myndasafn teikninga og ljósmynda sem Elisa vann á átta mánaða tímabili er hún var búsett á Íslandi. Hún vann meðal annars út frá textaverkum Guðmundar Odds Magnússonar, prófessors við Listaháskóla Íslands.
Opnunin hefst kl 20. Hin ofurhressa hljómsveit Gleðigosarnir sér gestum fyrir tónlist og boðið verður upp á léttar veitingar.
Verk af sýningunni.Elisa Vendramin er ítalskur hönnuður, búsett í London og útskrifaðist með meistaragráðu í grafískri hönnun frá Central St. Martins College of Arts and Design. Hún vinnur með ólíka miðla í verkum sínum, t.d. ljósmyndir og teikningu og tvinnar saman þrívíða myndskúlptúra sem mynda ólíkar áferðir og aðstæður.
Á sýningunni endurspeglar hún samband einstaklingsins við hið síbreytilega landslag íslenskrar náttúru.