Haraldur Björnsson, markvörður íslenska U-21 landsliðsins, hefur verið kallaður í A-landsliðið vegna meiðsla þeirra Gunnleifs Gunnleifssonar og Ingvars Þórs Kale.
Haraldur lék með U-21 liðinu gegn Úkraínu í gærkvöldi. Liðið heldur næst til Englands en þar spila strákarnir á mánudagskvöldið.
Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari, hefur nú neyðst til að kalla á Harald þar sem að Gunnleifur er meiddur í baki og Ingvar Þór er að glíma við ökklameiðsli.
Stefán Logi Magnússon mun standa í íslenska markinu í leiknum gegn Kýpverjum á morgun en nú er verið að vinna að því hörðum höndum að koma Haraldi á áfangastað sem allra fyrst en líklegt er að hann komist til Kýpur í fyrramálið.
Íslenska landsliðið æfir nú síðdegis og getur aðeins einn markvörður - Stefán Logi - tekið þátt í henni.
