Signý Hermannsdóttir, leikmaður KR, var vitanlega svekkt eftir tapið fyrir Keflavík í úrslitum Powerade-bikarkeppninnar í körfubolta í dag, 72-62.
„Það er erfitt að segja hvað hafi farið úrskeðis svo stuttu eftir leik,“ sagði hún í samtali við Vísi.
„Við hittum ekki eins vel og við hefðum viljað og þær komu svo með varnarafbrigði í þriðja leikhluta sem við leystum ekki vel. Munurinn var svo orðinn of mikill og við náðum ekki að brúa hann.“
„Við hikstuðum og þá duttum við út. Annars tel ég þetta mjög jöfn lið en þær voru betri í dag og kláruðu leikinn.“
„Þetta var mjög svekkjandi því við ætluðum okkur sigur í dag.“
