Svo virðist sem hljómsveitin SSSól hafi spáð fyrir um eldgosið í Eyjafjallajökli því hún hefur dustað rykið af níu ára gömlu lagi sem nefnist Ég veit þú spáir eldgosi.
„Þetta er ágætis lag og er alveg inni í þessu sem er búið að vera að gerast,“ segir söngvarinn Helgi Björnsson. „Við höfum aldrei spilað þetta og þetta fór ekki hátt á sínum tíma,“ segir hann en lagið kom út á safnplötunni Svona er sumarið árið 2001.
Ég veit þú spáir eldgosi er kröftugt rokklag með ólgandi undirtóni og textinn lýsir vel því ástandi sem nú herjar á landsmenn á Suðurlandi og reyndar víðar. Í texta lagsins er meðal annars talað um að „landið rísi, vatnið renni og himinn og jörð verði eitt.“
Hægt er að hlusta á lagstúf eða kaupa lagið hér á tonlist.is
SSSól er á leiðinni í stúdíó Hljóðrita að taka upp tvö ný lög í næstu viku og verður Kiddi Hjálmur á tökkunum. Hvort þau lög segi til um verðandi náttúruhamfarir á komandi árum skal ósagt látið. Áætlað er að lögin komi út á safnplötu með eldri lögum Sólarinnar og verður „nýja“ lagið þar á meðal. Vinnutitill plötunnar er Er'ekki allir sexý og kemur hún út í byrjun sumars.
Næstu böll SSSólar verða á Akranesi á laugardaginn og á Selfossi 8. maí. - fb