Flóðið sem er á leiðinni niður Eyjafjallajökul sem er að koma niður Gígjökul vegna gossins í Eyjafjallaökli er stærra en flóðið í gær að sögn Rögnvalds Ólafssonar hjá Almannavörnum. Rætt var við Rögnvald á Bylgjunni í kvöld.
Hann segir að í flóðinu séu miklir ísjakar en það hefur hann eftir vísindamönnum sem eru í flugvél landhelgisgæslunnar núna að kanna aðstæður.
Vart varð við hlaupið um hálf sjö í kvöld. Fjölmiðlum bárust svo tilkynning um tafarlausa rýmingu rétt fyrir klukkan sjö.
Flóðið nú virðist vera meira um sig heldur en flóðið í gær. Aftur á móti virðist það vera að sjatna eftir því sem flæðir lengra niður jökulinn.
Þá sagði Rögnvaldur að flóðið nú væri þegar búið að valda meira tjóni en flóðið í gær.
Rýming er vel á veg komin.