Skoðun

Hámark siðferðis

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar um siðferði og viðskipti.

Það er ekki brýnasta verkefni íslenskra bankastjóra að hámarka arðsemi til skamms tíma. Miklu mikilvægara er að hámarka siðferði til langs tíma. Þetta blasir við þegar sértæk skuldaaðlögun fyrirtækja stendur yfir. Þar verður ekki unað við þá þversögn að fulltrúar helstu gjaldþrota íslensks viðskiptalífs njóti forkaupsréttar á glötuðum eignum sínum. Og hvað segir það aukinheldur um hrunalærdóminn að þeir einir geta boðið best sem tapað hafa mestu?

Nú er það ekki svo að stjórnmálamenn eigi að ákveða hvaða einstaklingar mega reka fyrirtæki. Aftur á móti er pólitísk stefnumótun í þessum efnum afar mikilvæg - og sömuleiðis eftirfylgni þingheims. Skortur á hvorutveggju er samfélaginu háskalegur eins og nöturleg dæmin sanna.

Illskiljanlegt er að nýir bankastjórnendur hampi þeim helst sem verst hafa leikið íslenskt viðskiptalíf á síðustu árum. Öllu verra er að þeir njóti afskrifta og ívilnana umfram almenning. Það er eðlileg krafa að athafnamenn, sem hafa réttarstöðu grunaðra í bankahruninu, fái ekki óhindraðan aðgang að fyrri eignum sínum. Í reynd ber að taka fyrir það. Fyrir því hlýtur að vera meirihluti á Alþingi.

Engin ástæða er til að gefa afslátt af íslensku réttarkerfi við siðvæðingu viðskiptalífsins. Sakleysi gildir uns sekt er sönnuð. Því má vel vera að flestir þeir kaupahéðnar sem fremstir fóru í krosseignakapphlaupinu - og ekki hafa fengið réttarstöðu grunaðra - megi sitja við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að skiptum gæðanna, en þeir eiga ekki að njóta forkaupsréttar.

Hámörkun fjár má ekki vera á kostnað hámörkun siðferðis. Og svo er hitt: Almenn og opin útboð hljóta hér að vera meginreglan. Hitt er fullreynt í þröngu, myrkvuðu og líkast til mygluðu handvali.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×