Skoðun

Misminni Sigurðar Einarssonar

Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings hf., segist í viðtali við Fréttablaðið laugardaginn 28. ágúst sl. hafa sem formaður nefndar um framtíðarstefnu á fjármálasviði fengið bréf frá mér þar sem ég „leggist alfarið gegn… umræðu" um hlutverk Seðlabanka Íslands sem lánveitanda til þrautavara.

Alla getur misminnt - líka mig og Sigurð Einarsson. Í bréfi sem ég skrifaði honum 8. maí 2006 lýsi ég mjög jákvæðri afstöðu til starfs nefndarinnar sem hann stýrði. Ég tek fram að nokkur umræðuefni hennar snerti Seðlabanka Íslands og niðurstöður nefndarinnar muni síðar koma til umfjöllunar í bankanum. Ég segist ekki geta tekið þátt í umræðum og afgreiðslu þessara mála í nefndinni vegna starfa minna í bankanum. En alls ekki er mælt gegn því að nefndin fjalli um þessi mál.

Í bréfinu er vakin athygli á ákvæðum laga um Seðlabankann sem lánveitanda til þrautavara. Ákvæðin voru heimild en ekki skylda og tengdust aðeins lausafjárvanda en ekki eiginfjárvanda. Þá minni ég á það viðhorf að „eigendur og stjórnendur fjármálafyrirtækja sem og markaðsaðilar leysi vanda sinn sjálfir".

Vera má að Sigurði Einarssyni hafi ekki fallið þetta síðasta nógu vel í geð. Mér fannst tilefni til að minna sérstaklega á beina ábyrgð eigenda og stjórnenda bankanna. Atburðir sem orðið hafa síðar staðfesta og ítreka þetta sjónarmið rækilega eins og alþjóð veit.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×