AC Milan vann í kvöld öruggan 3-0 sigur á Juventus í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Alessandro Nesta skoraði fyrsta mark AC Milan í leiknum og Brasilíumaðurinn Ronaldinho hin tvö.
David Beckham var í byrjunarliði AC Milan í kvöld og lagði upp síðasta mark leiksins fyrir Ronaldinho.
Leikurinn fór fram á heimavelli Juventus og voru stuðningsmenn liðsins afar ósáttir við úrslit leiksins og báru eld að hluta áhorfendastúkunnar. Vallarstarfsmenn náðu þó að slökkva eldinn.
Inter er á toppi deildarinnar með 45 stig, átta stigum á undan AC Milan sem á reyndar leik til góða. Juventus er í þriðja sæti með 33 stig.